Alls bárust 112 athugasemdir við drög að tillögu Stakksbergs að matsáætlun vegna nýs umhverfismats vegna kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum 25. júní og var óskað eftir athugasemdum frá almenningi og öðrum við hana fyrir 10. júlí.
Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem fyrr á þessu ári tók yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi Sameinaðs sílíkons. Markmið Stakksbergs er að gera allar þær úrbætur sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar en stofnunin komst að þeirri niðurstöðu í janúar 2018 að verksmiðjan uppfyllti ekki skilyrði fyrir starfsleyfi.
Nýtt umhverfismat tekur til framkvæmda við úrbætur og breytingar á verksmiðjunni til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar. Ljóst er að verksmiðjan var að mörgu leyti vanbúin til framleiðslu á kísli, sem meðal annars leiddi til stöðvunar rekstursins. Stakksberg óskaði því eftir að gert yrði nýtt umhverfismat á starfsemi verksmiðjunnar en fyrsta skrefið í þeirri vinnu er að gera tillögu að matsáætlun þar sem gerð er grein fyrir fyrirhuguðum úrbótum og sett fram rökstudd áætlun um hvaða umhverfisþætti verði fjallað um í mati á umhverfisáhrifum endurnýjaðrar kísilverksmiðju.

Efni athugasemdanna sem bárust voru einkum: almenn mótmæli við starfsemi kísilverksmiðju í nágrenni bæjarins, íbúar upplifi sig blekkta vegna loftmengunar sem barst frá starfseminni, sjónmengunar mannvirkja og skipulags verksmiðjunnar auk efasemda um framkvæmdina vegna blekkinga stofnanda verksmiðjunnar. Þá bárust athugasemdir frá umsagnaraðilum, Veðurstofu Íslands, Reykjanesbæ og Vinnueftirlitinu. Snérust athugasemdir umsagnaraðila einkum um forsendur líkans um dreifingu efna í andrúmslofti, neyðarskorstein ogmat á ásýnd mannvirkja.

Þá hefur Umhverfisstofnun sent umsögn þar sem helst er komið inn á: Hlutverk neyðarskorsteins, áætlaðar tímasetningar úrbótaþátta, fjalla eigi um aðra kosti svo sem mismunandi tæknilausnir, þann valkost að endurræsa ekki verksmiðjuna, mat eigi að fara fram á áhrifum á sjófugla, umhverfisstjórnunarkerfi auk minni athugasemda á borð við fyrirkomulag kælingar, markmið og viðmið.

Fulltrúar Stakksbergs ætla sér að fara vel yfir athugasemdirnar og ræða markmið félagsins og tillögur á opnum íbúafundi í Reykjanesbæ í lok sumars.

Fjöldi athugasemda

0 15 30 45 60 28.jún 30.jún 1.júl 2.júl 3.júl 4.júl 5.júl 8.júl 9.júl 10.júl
Fjöldi athugasemda 112
Nafnleynd 52
Má birta nafn 60
Senda staðlaða ath.semd 78

Eldri skýrslur um framkvæmdina:

Purenviro 2018. TVOC emission dispersion modelling. 15. janúar 2018 (REP-P312-B-1).
Niðurstöður loftdreifilíkans fyrir rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC) sem talin eru geta valdið almenningi ónæði.

Norbert Schmidbauer og Espen Mariussen (2017). VOC measurement in vicinity of silicon smelter. Passive air sampling around United Silicon, Iceland. NILU report 35/2017. 26 s.
Niðurstöður mælinga norsku loftrannsóknastofnunarinnar (NILU) á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum (VOC) frá starfsemi kísilverksmiðjunnar.

Stakksbraut 9 (2013). Mat á umhverfisáhrifum við framleiðslu kísils í Helguvík. Matsskýrsla 9. apríl 2013.
Mat Stakksbrautar 9 á umhverfisáhrifum 100.000 tonna framleiðslu kísilverksmiðju í Helguvík árið 2013.