Sagan

Kísilverksmiðjan í Helguvík var byggð af Sameinuðu Sílikoni ehf. á árunum 2014 til 2016. Verksmiðjan hóf starfsemi í nóvember 2016 en fljótlega komu fram erfiðleikar í rekstri sem leiddu til þess að Umhverfisstofnun stöðvaði framleiðslu í september 2017. Ljóst er að verksmiðjan var ekki fullbúin til framleiðslu og átti það meðal annars við um búnað, skipulag og þjálfun starfsmanna.

Á starfstíma verksmiðjunnar var ljósbogaofn hennar aðeins í gangi ríflega 50% af tímanum en við eðlilegan rekstur er það hlutfall vel yfir 95%. Tíðar rekstrarstöðvanir leiddu til þess að endurræsa þurfti ofninn mjög oft. Við óstöðugar aðstæður í rekstri verksmiðju af þessari gerð næst sjaldan upp kjörhitastig í ofninum. Þetta leiðir til þess að sterk lykt, líkust arin eða kamínulykt, getur borist frá verksmiðjunni.

Á þeim tímabilum sem lágt rekstrarálag var á ofninum, yfirleitt í kjölfar endurræsingar, barst mikið af kvörtunum frá íbúum í nærliggjandi byggð vegna sterkrar lyktar. Niðurstöður loftgæðamælingar sem Norska loftrannsóknarstofnunin (NILU) gerði 21. maí til 27. júní 2018, benda hins vegar ekki til þess að efni í hættulegum styrkleika hafi borist frá verksmiðjunni.
Í framhaldi af stöðvun rekstrar haustið 2017 var Sameinað Sílikon tekið til gjaldþrotaskipta. Stakksberg ehf. keypti allar eignir þrotabúsins í febrúar 2018.